top of page
Ísland

Íslenska drykkjarvatnið kemur vel út í 95% tilfella þegar það er mælt. Í 5% tilfellanna eru vandamálin aðeins smávægileg. Á Íslandi eru aðeins fimm staðir þar sem yfirborðsvatn er notað en þar er vatnið geislað með útfjólubláum geislum til sótthreinsunar. Algengt er erlendis að bæta klór í vatnið en á Íslandi er vatnið ekki meðhöndlað með klór. Varnarefni og líffræn efni hafa t.d aldrei greinst í íslensku vatni en það er víða vandamál erlendis.

 

Einhver meðhöndlun, þar á meðal hreinsun á drykkjarvatni, er nauðsynleg í öllum höfuðborgum Norðurlandanna nema Reykjavík. Neysluvatn Reykvíkinga er alfarið grunnvatn. Vatnsból Reykvíkinga eru á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Vatnið er ómeðhöndlað áður en því er veitt á kerfið og er undir ströngu gæðaeftirliti. Orkuveita Reykjavíkur starfrækir vatnsveituna og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sinnir sýnatöku og vöktun á neysluvatni.

 

Orkuveita Reykjavíkur sér höfuðborgarbúum og íbúum nokkurra nágrannasveitarfélaga fyrir vatni. Vatnsból Orkuveitunnar í Heiðmörk, Gvendarbrunnar, Jaðarsvæði, Myllulækjarsvæði og Vatnsendakriki eru vatnstökusvæðin. Allt vatn er tekið úr yfirbyggðum borholum sem eru frá 10 til 140 metra djúpar. Þaðan berst það til neytenda. Mest allt vatn sem fer til neyslu á Íslandi eða rúmlega 95% er ómeðhöndlað grunnvatn. Grunnvatn er vatn sem er neðanjarðar en neðan vissra marka eru allar holur og glufur í jarðlögum fylltar vatni. Grunnvatns er aflað úr lindum, borholum og brunnum.

bottom of page